Domino‘s á Íslandi skilaði 0,6 milljóna punda hagnaði fyrir skatta og fjármagnsliði (EBIT), sem jafngildir um hundrað milljónum króna, á fyrri helmingi ársins. Afkoman jókst frá sama tíma á síðasta ári, þegar EBIT hagnaðurinn nam hálfri milljón punda, en var nærri helmingi lægri en á sama tímabili árið 2019.

Breska samstæðan Domino‘s Pizza Group (DPG) færði til bókar 6,6 milljóna punda tap, eða um 1,1 milljarði króna, vegna sölunnar á rekstrinum á Íslandi til PPH ehf. sem skýrist aðallega af neikvæðum þýðingarmun. Sölutapið kemur til viðbótar við 2,6 milljarða króna virðisrýrnun DPG á íslenska rekstrinum fyrr í ár.

Breska félagið keypti Domino‘s á Íslandi fyrir ríflega átta milljarða árin 2016- 2017 en seldi svo reksturinn til PPH fyrir 2,4 milljarða í vor.

PPH ehf. er í 35% eigu Eyju fjárfestingarfélags, sem Birgir Þór Bieltvedt og Eygló Björk Kjartansdóttir eiga. Fjárfestingarfélög Guðbjargar M. Matthíasdóttur og fjölskyldu annars vegar og hins vegar Bjarna Ármannssonar fara með sitthvorn 26% hlut í PPH. Aðrir hluthafar eru Lýsi hf. með 13% hlut og lögmannsstofan Jónsson & Harðarson ehf. með 1% hlut.