Þórður H. Ólafsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs, segir að leggja þurfi í miklar framkvæmdir við Jökulsárlón, vegna fjölgunar ferðamanna og þess að deilur hafi hingað til staðið uppbyggingu fyrir þrifum, og nefnir hann um milljarð króna sem útgangsstærð.

„Fyrir eru litlir sem engir innviðir,“ segir Þórður, sem segir fyrstu skrefin vera að fjölga bílastæðum og byggja upp viðunandi salernisaðstöðu, en nálega milljón ferðamenn sækja Jökulsárlón heim á ári hverju að því er fram kemur í Fréttablaðinu í dag.

„Þarna þarf að byrja frá grunni. VIð munum byrja á endurskoðun á deiliskipulaginu sem er í gildi, og sú vinna er þegar hafin. Svo munum við leggja fram hugmyndir um uppbyggingu.“

Verður fært undir þjóðgarðinn

Þórður segir að vegna skorts á samstöðu jarðeigenda hafi lítið sem ekkert verið gert hingað til, en nýlega keypti ríkið jörðina Fell fyrir 1,5 milljarð svo nú er allt svæðið komið á hendur ríkisins, og hefur þjóðgarðinum verið færð umsjón jarðarinnar.

Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp um breytingu á lögum um þjóðgarðinn á Þingvöllum sem og um Vatnajökulþjóðgarð, og er þess vænst að jörðin verði formlega færð undir garðinn innan tíðar.

Gjaldtaka nauðsynleg

Síðan þarf að mati Þórðar að reisa gestastofu við lónið sem ráði við fjöldann. „Þá eru ótaldir göngustígar og slíkt. Það er hluti af deiliskipulagsvinnunni og þeir geta þess vegna náð alla leið upp að jökli að austanverðu. En salernismálin vega þungt, enda allt of bágborin staða,“ segir Þórður sem segir gjaldtöku nauðsynlega.

„Þetta mun byggjast upp hraðar ef gjaldtaka kemur til, í stað þess að bíða eftir sérstökum framlögum á fjárlögum á hverju ári. Að mínu mati þarf þetta að gerast hratt, en engu að síður að vera vandað - enda er þessi staður svo sérstakur að þetta uppbyggingarstarf krefst þess að vandað sé til verka.“