Færeyska landsstjórnin hefur að undanförnu staðið fyrir tveimur uppboðum á samtals 14 þúsund tonna makrílkvóta. Hið fyrsta fór fram hjá Fiskamarknaði Føroya hinn 26. júlí sl. og þá fékkst meðalverðið 1,7 danskar krónur á kíló. Hið síðara fór fram í fyrradag og þá fengust að meðaltali 4,78 færeyskar krónur á kíló. Samanlagt jafngildir þetta því að 45.360.000 færeyskar krónur hafi fengist fyrir kvótann, jafngildi rúmlega 1 milljarðs íslenskra króna en ein færeysk króna er jafngild einni danskri krónu.

Tekjur af sölunni renna beint til ríkissjóðs Færeyja og á vef færeyska Fiskimálaráðsins var það í kjölfar fyrsta uppboðsins haft eftir Johanni Dahl, sem er landstýrismaður sjávarútvegsmála í færeysku landsstjórninni, að hann geti ekki annað en verið ánægður með niðurstöðu uppboðsins. Samkvæmt upplýsingum sem Viðskiptablaðið fékk hjá Fiskimálaráðinu stendur til að bjóða upp 6 þúsund tonn til viðbótar. Síðasta uppboðið mun fara fram fyrir lok septembermánaðar.

Framherji á meðal kaupenda

Sex aðilar tóku þátt hvoru uppboði og þar af voru tilboð frá þremur aðilum samþykkt í því fyrra og frá fjórum í því síðara. Á meðal þeirra sem áttu samþykkt tilboð í síðara uppboðinu var Framherji, dótturfélag Samherja í Færeyjum, en alls keypti fyrirtækið 1.505 tonna kvóta samkvæmt upplýsingum á vef Fiskmarknaðarins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð