Um miðjan síðasta mánuð urðu notendur Facebook samskiptasíðunnar fleiri en milljarður talsins. Mark Zuckerberg, stofnandi síðunnar, greindi frá áfanganum í viðtali á NBC sjónvarpsstöðinni í dag. Hann sagði það mikinn heiður að svo margir noti síðuna.

Fram kom að frá stofnun síðunnar eru vinatengingar 140,4 milljarðar talsins og 219 milljarðar mynda hafa verið settar á Facebook. Frá því að hægt var að hlusta á tónlist á síðunni í september 2011 hafa 62,6 milljónir laga verið spiluð í samtals 22 milljarða skipti. Það gera um 210 þúsund ár af tónlist.