Hagnaður Landsafls á síðata ári, að teknu tilliti til matsbreytingar fjárfestingaeigna og reiknaðs tekjuskatts, nam 1.086 millj.kr. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 560 millj.kr. samanborið við 493 millj.kr. árið áður.Samkvæmt sjóðstreymi ársins var veltufé frá rekstri 280 millj.kr. samanborið við 224 millj.kr. árið áður. Handbært fé frá rekstri nam 340 millj.kr. samanborið við 188 millj.kr. árið áður.

Samkvæmt efnahagsreikningi í árslok 2004 námu heildareignir félagsins 10.638 millj.kr. og bókfært eigið fé nam 3.629 millj.kr. og eiginfjárhlutfall því 34%.

Þær breytingar eru gerðar á reikningsskilaaðferðum félagsins að fasteignir eru nú flokkaðar sem fjárfestingaeignir og metnar á gangverði í samræmi við alþjóðlegan reikningsskilastaðal nr. 40 (IAS). Einnig er verðleiðréttingum reikningskilanna hætt. Við mat á gangverði fjárfestingaeigna er stuðst við núvirt áætlað framtíðarsjóðsflæði einstakra eigna.

Afkoma ársins er viðunandi að mati stjórnenda Landsafls hf. Horfur í rekstri félagsins á árinu 2005 eru ágætar. Endanleg niðurstaða mun þó meðal annars ráðast af skilyrðum á fjármagnsmörkuðum og gengisskráningu íslensku krónunnar. Markmið eiganda félagsins á árinu 2005 er að stækka og efla það til muna.

Landsafl hf. er fasteignafélag sem sérhæfir sig í eignarhaldi, umsýslu, rekstri og útleigu fasteigna. Markmið félagsins er að eiga og reka fasteignir í langtíma- og/eða skammtímaútleigu. Félagið hefur yfir að ráða um 100 þús. fermetrum af húsnæði, skrifstofu- og verslunarhúsnæði, iðnaðarhúsnæði, vörugeymslum o.s.frv. Viðskiptavinir félagsins eru fjölmargir, ríki og sveitarfélög, félög skráð í Kauphöll Íslands sem og ýmis önnur stór og smá fyrirtæki.

Skuldabréfaflokkar Landsafls hf. samtals að fjárhæð 1.800 millj.kr. eru skráðir í Kauphöll Íslands.