Gífurlegt tap hefur verið síðustu ár af félögum í eigu Hreins Loftssonar, hrl. og fyrrverandi stjórnarformanns Baugs, en félögin tengjast að mestu leyti útgáfustarfsemi DV og annarra fjölmiðla.

Félagið Hjálmur ehf. er í eigu Hreins og heldur utan um eignarhald hans í Birtingi. Birtingur gefur m.a. út DV, Séð & Heyrt, Mannlíf, Gestgjafann og fleiri tímarit. Hreinn keypti stærstan hlut í félaginu haustið 2008.

Samkvæmt ársreikningi Hjálms nam tap félagsins á árinu 2008 nam tæpum 302 milljónum króna.Tapið er að stærstum hluta skýrt með rýrðum eignarhlutum í dótturfélögum en langstærsta eignin er Birtingur. Tap félagsins árið 2007 nam tæplega 408 milljónum króna og hefur félagið því tapað um 710 milljónum króna á tveimur árum.

Samkvæmt ársreikningi Birtings nam tap félagsins árið 2008 tæpum 150 milljónum króna, samanborið við tæplega 23 milljóna króna tap árið áður.

Félög Hreins sem tengjast útgáfustarfseminni eru þrjú. Í fyrsta lagi Austursel ehf. sem er í 100% eigu Hreins. Austursel á 100% hlut í Hjálmi, sem síðan á útgáfufélagið Birting að mestu leyti. Hreinn Loftsson er stjórnarformaður í Austurseli og Hjálmi.

Ef skoðaðir eru ársreikningar þessara þriggja félaga nemur tap þeirra rúmlega 920 milljónum króna á tveimur árum, þ.e. árin 2007 og 2008. Ársreikningar fyrir árið 2009 liggja ekki fyrir.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .