Í lok síðustu viku rann af færibandinu milljónasta bókin sem prentuð var í Prentsmiðjunni Odda árið 2008. Af því tilefni var sett inn í milljónustu bókina gjafakort fyrir 40 þúsund krónur á veitingahús í Reykjavík.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Odda.

Þar kemur fram að í ár verða hátt í 200 þúsund fleiri bækur prentaðar í Odda en árið 2007. Þá voru prentaðar um1.030.000 bækur, en í ár stefnir í að þær verði rúmlega 1.200.000.

Fjöldi titla er svipaður milli ára, en upplög stærri.

Þá segir jafnframt að í ár er talsvert hærra hlutfall af því sem í daglegu tali kallast jólabækur prentaðar hjá Odda en í fyrra.

Þá eru yfir 60% bóka sem prentaðar eru fyrir Íslandsmarkað prentaðar hérlendis og hefur þetta hlutfall snúist við frá því sem verið hefur undanfarin ár. Ef einungis er tekið tillit til jólabóka er líklegt að hlutfall þess sem prentað er hérlendis sé allt að 80%.

„Það borgar sig því augljóslega að lesa gaumgæfilega þær bækur sem fólk fær í jólapakkann í ár, bæði í andlegum og veraldlegum skilningi,“ segir í tilkynningunni.

Hinn heppni lesandi sem eignast milljónustu bókina er vinsamlegast beðinn um að gefa sig fram við markaðsdeild Odda.