Um 1,1 milljón ferðamanna kom til landsins með flugi og skemmtiferðaskipum í fyrra. Þar með hafa í fyrsta skiptið í sögunni komið meira en milljón ferðamenn til Íslands á einu ári.

Til þess að flækja þetta aðeins þá segir Ferðamálastofa í frétt á sinni heimasíðu að „nærri“ milljón ferðamenn hafi komið til landsins í fyrra. Vísar stofan í tölur um fjölda ferðamanna sem komu hingað í gegnum Keflavíkurflugvöll og aðra flugvelli en þeir voru 997 þúsund talsins. Allar viðmiðunartölur þegar rætt er um fjölda ferðamanna á Íslandi miða einmitt við flugfarþega. Til dæmis þegar verið er að bera saman fjölda ferðamanna á Íslandi á milli ára þá er alltaf miðað við farþega sem koma með flugi og farþegar skemmtiferðaskipa ekki teknir með í reikninginn.