Íslensk flugfélög gæti þurft að horfa upp á talsvertan aukakostnað sem hleypur á milljónum króna ef lagabreytingar vegna reksturs flugmálayfirvalda í Danmörku ná fram að ganga. Samkvæmt útreikningum Viðskiptablaðsins myndi kostnaður Icelandair m.v. við farþegafjölda ársins 2011 nema um 35 milljónum íslenskra króna.

Hingað til hafa dönsk flugfélög greitt fyrir rekstur danskra flugmálayfirvalda en samkvæmt þessum nýju áætlunum munu önnur félög þurfa að taka við keflinu að hluta. SAS hefur hingað til verið einn stærsti greiðandinn. Í frétt E24 um málið kemur fram að norska flugfélagið Norwegian sér fram á mikinn kostnað við þessar auknu álagningu. Álagningin nemur 6 dönskum krónum á hvern farþega og mun taka gildi 1. júli 2013 ef áætlanir ganga eftir.

Eins og vefurinn turisti.is greindi frá í mars þá voru farþegar Icelandair um 273 þúsund talsins árið 2011 en samtals voru farþegar á vegum íslenskra flugfélaga um 380 þúsund á því ári. Kostnaður Icelandair við svipaðan farþegafjölda og árið 2011 yrði þá um 35 milljónir króna en samtals myndu íslensk félög greiða um 49 milljónir króna miðað við sömu forsendur. Ef farþegum fjölgar frá árinu 2011 þá hækkar gjaldið.