Samtök iðnaðarins efast um lögmæti boðaðara innviðagjalda í höfuðborginni, sem eiga að greiða fyrir  uppbyggingu á svokallaðri borgarlínu fyrir almenningssamgöngur, sem mun kosta allt að 72 milljarða eins og Viðskiptablaðið hefur áður greint frá .

Innviðagjöld bætast almennt við lóðaverð og eiga að mæta kostnaði við uppbyggingu innviða, til dæmis skóla, og að dæmi séu um að þau séu 15-25 þúsund krónur á fermetra, sem samsvari um 1,5-2,5 milljónum króna á 100 fermetra íbúð að því er Morgunblaðið greinir frá.

Ódýrar íbúðir á jöðrunum, t.d. Akranesi og Selfossi

„Við höfum efasemdir um að slík gjaldtaka sé heimiluð í lögum,“ segir Árni Jóhannesson, sviðsstjóri mannvirkjasviðs hjá Samtökum iðnaðarins, en hann segir gjaldtökuna fara „lóðbeint út í íbúðaverð.“ Segir hann að vegna þessarar þróunar verði hverfandi framboð á nýjum og ódýrum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu, heldur verði slíkar íbúðir byggðar á jöðrum þess, til dæmis á Selfossi og Akranesi.

„Ódýru íbúðirnar verða byggðar á jöðrunum. Þær verða ekki byggðar vestan við Elliðaár,“ segir Árni sem segir aðstæðurnar nú á byggingamarkaði án fordæma.

Sveitarfélögin leggja áherslu á byggð meðfram leiðum hinnar fyrirhuguðu borgarlínu, og hefur Mosfellsbær þegar ákveðið að láta innviðagjald koma á móti hluta kostnaðar við uppbyggingu borgarlínu í fyrirhugaðri 6.000 manna byggð í Blikastaðalandi. Auk þess eru hugmyndir um að innheimta aukagjald vegna borgarlínu á þéttingarreitum á Kringlusvæðinu og í Mjódd í Reykjavík, en auk þess undirbýr Kópavogur slíka gjaldtöku.