Viðskiptablaðið fór á stúfana og spurði forsetaframbjóðendurna um áætlaðan kostanð við baráttuna um Bessastaði. Svör eru ýmist frá frambjóðendum sjálfum eða aðstandendum kosningastjórna:

Andrea Jóhanna Ólafsdóttir:

„Ég hef enga peninga að baki og mun sníða mér stakk eftir vexti. Fái ég engin fjárframlög þá verður það bara þannig að ég auglýsi ekkert. [ ... ] Ég er í rauninni ekkert farin að safna neinu að ráði en hef til dæmis fengið gefins vinnu við heimasíðuna sem maðurinn minn hannaði.“

Ari Trausti Guðmundsson:

„Við munum eyða því sem við öflum, þó er líklegra að það verði í hundruðum þúsunda en milljónum. [ ... ] Við munum eyða fáeinum hundruðum þúsunda af eigin aflafé, t.d. af ritlaunum. [ ... ] ? Framlög hafa komið fyrst og fremst frá vinum og ættingjum, auk nokkurra fyrirtækja. Það hefur enginn verið að styrkja um háar fjárhæðir, enda þurfa allir einstaklingar og fyrirtæki að sýna aðhald í fjármálum eins og staðan er í dag.“

Hannes Bjarnason:

„Við höfum sett þakið við 4 milljónir króna og teljum þar með reiknað tekjutap vegna launalaus leyfis frá vinnu í Noregi. Við ætlum ekki að þiggja styrki frá nokkrum aðila og teljum okkur því gjörsamlega óháð og gagnsætt framboð.“

Herdís Þorgeirsdóttir:

„Formleg kostnaðaráætlun hefur ekki verið gerð. Við það er miðað að fjármuna sé aflað áður en þeim er eytt. Herdís skýrði frá því strax í upphafi að baráttan yrði rekin á lágmarkskostnaði. [ ... ] Fjöldi einstaklinga hefur látið fjármuni af hendi rakna nú þegar. Nákvæmur fjöldi liggur ekki fyrir en framboðið mun fylgja lögum um uppgjör að kosningum loknum.“

Ólafur Ragnar Grímsson:

„Við gerum ráð fyrir að baráttan kosti fáeinar milljónir. Ég hef þegar lagt inn á reikning framboðsins tvær milljónir króna. [ ... ] Framlög hafa borist frá ýmsum og eru enn að berast. Gerð verður grein fyrir þeim þætti ásamt öllum kostnaði í heildaruppgjöri framboðsins í samræmi við gildandi lög.“

Þóra Arnórsdóttir:

„Eins og sakir standa gerir kostnaðaráætlun okkar ráð fyrir að kosningabaráttan kosti um það bil 10 milljónir en það er miðað við framgang söfnunarinnar. Ef meira fé safnast þá verður meira lagt í slaginn. [ .. ] Þóra og Svavar hafa fyrir stórri fjölskyldu að sjá og hafa ekki þannig fjárráð að þau geri ráð fyrir að greiða mikið úr eigin vasa. [ ... ] 97% þeirra sem styrkja eru einstaklingar sem leggja fram mjög lágar upphæðir. En meðaltal heildarinnar er um 19.000 kr.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.