Kostnaður tryggingafélaga vegna endurtrygginga í kjölfar brunans í Skeifunni á dögunum skiptist misjafnlega. Þrátt fyrir að tryggingafélögin hafi öll sent frá sér áætlaðan kostnað vegna tjónsins hefur einungis eitt tryggingafélag birt upplýsingar um viðbótarkostnað vegna endurtrygginga.

Tryggingafélögin eru öll með samninga við erlenda endurtryggjendur og því mun kostnaðurinn við brunann aðeins að hluta falla á þau. Félögin hafa öll gefið út að kostnaður þeirra muni nema ákveðinni eigin áhættu endurtryggingasamninga. Þannig er eigin áhætta VÍS 250 milljónir, Sjóvár um 200 milljónir og TM 150 milljónir. Þó er óvíst hvort þetta er allur kostnaðurinn sem tryggingafélögin þurfa að taka á sig vegna brunans. Ástæðan er sú að þegar endurtryggingasamningar eru endurnýjaðir þá er m.a. litið til tjónasögu félagsins. Því gætu endurtryggingakjör félaganna versnað í framhaldinu.

Í lýsingu TM frá 11. apríl 2013, sem gefin var út vegna hlutafjárútboðs, segir t.a.m. að endurtryggingavernd félagsins sé ekki ótakmörkuð: „Verði margir tjónsatburðir sem endurtryggjendur þurfa að bera mikinn kostnað af er veruleg hætta á að endurtryggingakjör TM verði lakari sem mun hafa neikvæð áhrif á rekstur félagsins.“ Í lýsingu VÍS sem dagsett var 27. mars er sambærilegan texta að finna: „Fjöldi stórtjóna kann að hafa áhrif á kjör endurtrygginga félagsins og þar með haft neikvæð áhrif á afkomu VÍS.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .