Samkvæmt nýrri skýrslu frá WealthInsight er búist við því að milljónamæringum í Mið-Austurlöndum muni fjölga gríðarlega á næstu árum. Þannig muni vöxturinn nema 4,1% árlega milli áranna 2015 og 2019, en verði það að veruleika munu milljónamæringarnir telja 226.809 árið 2019.

Í skýrslunni er miðað við þá sem eiga eignir að virði einnar milljónar dala að minnsta kosti, en vöxtur þeirra hefur verið mjög mikill milli áranna 2010 og 2014. Á Persaflóasvæðinu nam vöxtur milljónamæringa á þessu tímabili 8,1%, en þeim fjölgaði úr 136.195 á árinu 2010 í 185.816 árið 2014. Mest hefur aukningin verið í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Sádí-Arabíu, Kúveit og Katar.

Í skýrslunni kemur fram að nokkrir þættir styðji við þennan mikla vöxt, sem sérstaklega muni koma fram í Barein og Katar, en þar sé einkum að þakka stærð hagkerfa landanna. Vegna smæðarinnar eigi þau auðveldara með að vaxa hratt en önnur ríki.