Rúmlega ellefu milljóna króna reikningar lögmanns vegna starfa í tengslum við hið svokallaða Sjanghæ-mál standa óhaggaðir en úrskurðarnefnd lögmanna (ÚRL) vísaði nýverið kröfum um niðurfellingu eða lækkun þeirra frá nefndinni.

Sjanghæ-málið hófst í ágúst 2017 þegar sagt var frá því í fréttum RÚV að eigandi veitingastaðarins lægi undir grun um vinnumansal. Um svipað leyti tók Jóhannes Már Sigurðarson lögmaður að sér að gæta hagsmuna félagsins í fjölmiðlum og ræddi eigandinn við hann um að taka að sér að reka mál gegn RÚV. Ekki kom þó til þess heldur sinnti hann ráðgjöf vegna þessa en þá fyrir hönd Fyrirtækjasölunnar Suðurveri.

Staðnum bárust reikningar frá lögmanninum vegna þeirrar vinnu en reikningarnir voru studdir tímaskýrslum. Samkvæmt þeim voru vinnustundir vegna málsins 379 en þar af hafi til að mynda tæplega 111 klukkustundir verið vegna samskipta, símtala og tölubréfa, í septembermánuði 2017. Fyrir vinnuna skyldu greiðast 11,3 milljónir króna en það töldu aðstandendur Sjanghæ úr hófi og kröfðust þess fyrir nefndinni að reikningarnir yrðu felldir úr gildi eða þeir lækkaðir verulega.

Í málsástæðukafla lögmannsins er því lýst að á meðan hann „sinnti nær daglegri krísustjórnun fyrir [staðinn] hafi komið fram verulega skaðlegar upplýsingar fyrir [staðinn], kæmust þær í fjölmiðla“. Hafi hann því skýrt forsvarsmönnum Sjanghæ frá því að hann myndi ekki koma að því að höfða mál á hendur RÚV enda verulegar líkur á að það myndi tapast og að í kjölfarið kæmust fjölmiðlar að því „hvernig staðan væri í raun og veru“. Undir lok síðasta árs virðist lögmaðurinn Sævar Þór Jónsson hafa tekið málið upp á sína arma.

Lögmaðurinn fór á móti fram á það að málinu yrði vísað frá þar sem ekkert viðskiptasamband hefði verið milli hans og staðarins. Verksali í þessu tilfelli hafi verið Fyrirtækjasalan, en viðskiptasamband hafi verið milli félagsins og veitingastaðarins áður, og reikningar í málinu gefnir út af því fyrirtæki en ekki lögmannsstofunni. Störf hans í tengslum við málið hafi takmarkast við krísustjórnun. Aldrei hafi verið undirritað málflutningsumboð og eiginlegur málarekstur fyrir dómstólum aldrei farið af stað. Með kvörtun málsins væri gróflega vegið að starfsheiðri hans.

Að mati ÚRL var réttarsamband á milli aðila þar sem um lögfræðitengd störf hafi verið að hluta og kærði í málinu titlaður lögmaður á heimasíðu Fyrirtækjasölunnar. Hins vegar var á það bent að tímaskýrslur vegna málsins hefðu legið fyrir í desember 2017 og hluti upphæðarinnar greiddur athugasemdalaust í febrúar 2018. Kvörtun til nefndarinnar hafi borist í mars 2019 og þá hafi tímafrestir sem lögmannalögin kveða á um verið liðnir. Ágreiningi um reikningana var því vísað frá.

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .