Laxeldisfyrirtækið Grieg Seafood í Noregi hefur verið sektað um tæpar 50 milljónir fyrir að hafa falsað tölur um fjölda laxalúsa í laxeldisstöðvum sínum. Málið er litið mjög alvarlegum augum enda getur laxalús haft slæm áhrif á villta laxastofna. Greint er frá málinu á vef norska ríkisútvarpsins (NRK).

Það var efnahagsbrotadeild norsku lögreglunnar (Økokrim) sem rannsakaði málið og sektaði fyrirtækið. Martin Vike, forstjóri Grieg Seafood, þvertekur fyrir það að tölur hafi verið falsaðar og fullyrðir að lúsafjöldinn á laxeldisstöðvum fyrirtækisins hafi aldrei mælst yfir leyfilegum mörkum. Þessi yfirlýsing hans stangast fullkomlega á við upplýsingarnar sem efnahagsbrotadeildin er með undir höndum. Fyrirtækið hefur samþykkt að greiða sektina og er skýringin sem gefin er á því sú að of dýrt sé að fara með málið fyrir dómstóla.

Grieg Seafood er eitt af stóru laxeldisfyrirtækjunum í Noregi. Það er með laxeldi á í Finnmörku í Norður-Noregi og Rogaland í Suðvestur-Noregi. Auk þess er Grieg Seafood með laxeldi í Bresku-Kólumbíu í Kanada og á Hjaltlandseyjum.

Laxalús leggst á fisk á öllum aldri og getur fjölgað sér mjög ört við ákveðnar aðstæður. Í verstu tilfellum getur hún étið höfuðbein fisksins upp að ofan þar til heilinn blasir við. Ýmsar rannsóknir hafa sýnt að sýkingartíðni er mest á svæðum þar sem laxeldi er stundað, að því er fram kemur á vef Landssambands veiðifélaga . Ef laxveiðiár eru í námunda við sjókvíar geta villt gönguseiði á leið til hafs þurft að fara í gegnum ský af laxalúsum. Talið er að ef 11 lúsalirfur festi sig á seiði eigi það ekki afturkvæmt upp ána sem hrygningarfiskur. Sjóbirtingur er jafnvel í enn meiri hættu á svæðum þar sem mikið er af laxalús því hann heldur sig nær ströndu en laxinn.