Milljónasta tonnið af áli var framleitt í álveri Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði í vikunni. Framleiðslan hófst í apríl 2007. Verðmæti milljón tonna eru nú um 265 milljarða króna miðað við álverð á markaði og gengi dollars gagnvart krónu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Alcoa Fjarðaál hefur sent frá sér af þessu tilefni.

„Þetta er sannarlega ánægjulegur áfangi og við hjá Fjarðaáli erum afar stolt af okkar framleiðslu. Upphaflega var talið að framleiðslugeta álversins yrði um 346.000 tonn á ári, en framleiðslan hefur reynst meiri og nýtt starfsleyfi gerir ráð fyrir að hún verði aukin í allt að 360.000 tonn. Verðmæti útflutnings okkar á síðasta ári var um 75 milljarðar króna og um 40% af því varð eftir á Íslandi,“ segir Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa á Íslandi. Samtals starfa um 800 manns á álverssvæðinu í Reyðarfirði.

Tómas Már segir að hlutfall virðisaukandi vöru hjá Fjarðaáli fari vaxandi sem eykur mjög verðmæti útflutningstekna. Einnig hefur framleiðsla í kerskála álversins í Reyðarfirði verið aukin með bættri straumnýtingu.

Milljónasta áltonnið, var framleitt í víravél álversins og notað í 9,5 mm álvír í rafmagnskapla. Vírarnir eru nú í gámi um borð í skipi á leið til dreifingar í Mið-Evrópu. Álver Fjarðaáls framleiðir hreint gæðaál, álvíra og álblöndur sem m.a. eru notaðar í bílaiðnaði. Stærstur hluti útflutningsvara Fjarðaáls fer til meginlands Evrópu.