*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Innlent 18. desember 2007 16:43

Milljónatjón á götulýsingu í óveðri

Ritstjórn

Milljónatjón hefur orðið á höfuðborgarsvæðinu í óveðri undanfarinna daga. Ljósaperur í götuljósum hafa sprungið, ljósastaurar skekkst og jafnvel brotnað og jólaskreytingar fokið út í veður og vind.  

Í tilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur segir að haldið sé úti fimm körfubílum með áhöfnum til þess að freista þess að sinna viðgerðum, en mjög víða eru heilu íbúðar - og umferðargötur ljóslausar eða ljóslitlar.  

Viðgerðarflokkar hafa ekki haft undan og því ekki tekist að koma lýsingu alls staðar á, en unnið er eins hratt og hægt er við að skapa fullnægjandi öryggi með lýsingu.

Ljóst er, að tjónið skiptir milljónum, jafnvel milljónatugum, en engan veginn er hægt að segja um hversu mikið það er, fyrr en fullnaðarviðgerð hefur farið fram, segir í tilkynningunni.