Innanríkisráðherra, Ólöf Nordal, og bæjarstjóri Fjarðarbyggðar, Páll Björgvin Guðmundsson, skrifuðu í gær undir samning um að sameinast um framkvæmdir á Norðfjarðarflugvelli fyrir 158 milljónir króna.

Um er að ræða flugvöll sem ekki er með reglulegu áætlunarflugi, en notaður er meðal annars til sjúkraflugs. Snúast framkvæmdirnar um að styrkja burðarlag flugbrautarinnar, leggja á hana bundið slitlag og bæta við snúningsplani á báða enda.

Er gert ráð fyrir að framkvæmdum ljúki eftir ár, en einungis eitt tilboð barst í verkið, frá Héraðsverki, sem var yfir kostnaðaráætlun. Þegar hefur verið samið við fyrirtækið og greiðir Fjarðabyggð 76 milljónir króna og ríkissjóður rúmlega 82 milljónir króna í verkið.

Isavia ofh hefur umsjón með framkvæmdunum, en í samkomulaginu er gert ráð fyrir að Isavia og Fjarðabyggð muni semja um framtíðarfyrirkomulag rekstrar flugvallarins.