„Þetta sýnir hvað samfélagsmiðlar eru ofboðslega öflug tæki,“ segir Jón Ólafsson, löngum kenndur við Skífuna en vatnsútflutning síðustu misserin. Bandaríska tímaritið INC sem fjallar aðallega um frumkvöðla birti við hann viðtal á dögunum. Þar var fjallað um feril Jóns, ástæðuna fyrir því að hann fór út í vatnsútflutning og honum líkt við breska frumkvöðulinn og ofurhugann sir Richard Branson.

Jón Ólafsson
Jón Ólafsson
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Umfjöllunin vakti mikla athygli á Netinu og birtu fjölmargir hana, svo sem Business Insider á meðan aðrir vísuðu í hana. Því til viðbótar benda nýjustu netmælingar til þess að hún hafi náð til rúmlega 307 milljón Twitter-notenda (e. Twitter reach).

Jón segir það hafa komið sér á óvart hversu hratt og víða greinin fór um Netið. Hann segir í samtali við Viðskiptablaðið ekki hafa séð annað eins og hafi hann fengið heilmikil viðbrögð við umfjölluninni, bæði persónulega og fengið fyrirspurnir um vatnið sem tappað er á flöskur í landi Hlíðarenda við Þorlákshöfn í nafni Icelandic Glacial.

Hann bendir á að menn geti lært mikið af þessu um þær breytingar sem orðið hafi á fjölmiðlun og áhrifum samfélagsmiðla.

„Menn þurfa að fylgjast vel með því hvernig fjölmiðlar eru að þróast og hvernig best er að nýta þá til árangurs,“ segir hann.

Vatnsverksmiðja Iceland Glacial í Ölfusi
Vatnsverksmiðja Iceland Glacial í Ölfusi
© Hörður Kristjánsson (VB MYND/ HKR)
Vatnsverksmiðjan sem Jón á ásamt fleirum við Þorlákshöfn.