Fjarheilbrigðisþjónustufyrirtækið Mín Líðan hefur samið við Heilsugæsluna Lágmúla um að fyrirtækið veiti skjólstæðingum Heilsugæslunnar þjónustu. Þetta kemur fram í Facebook-færslu á síðu fyrirtækisins .

Samningurinn kveður á um að skjólstæðingar heilsugæslunnar hafi aðgang að fjargeðheilbrigðisþjónustu Mín líðan og þar með auknu aðgengi og styttri biðtíma að sálfræðiþjónustu, að því er fram kemur í tilkynningu um málið.

Mín Líðan veitir sálfræðiþjónustu sem fer alfarið fram á netinu , og var fyrsta fjarheilbrigðisþjónustufyrirtækið til að hljóta samþykki Landlæknis.

„Þetta er stórt skref fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu og virkilega gaman að sjá heilsugæslu stíga skrefið og styðja við íslenska nýsköpun og heilbrigðistækni sem og að auka aðgengi að árangursríkri sálfræðiþjónustu,“ segir í Facebook-færslunni.

Samstarfið er ennfremur sagt einstaklega mikilvægt á tímum heimsfaraldursins, enda hafi aðgengi að sálfræðiþjónustu verið ábótavant meðan á honum stendur.