Íslenska sprotafyrirtækið MindGames ehf varð í desember fyrst í heiminum til að selja iPhone forrit (e. app) sem nýtir hugarorku notandans og nefnist það Tug of Mind.

Þetta kemur fram á vef MindGames en leikurinn var fyrst kynntur á alþjóðlegri leikjaráðstefnu í San Francisco á síðasta ári við mjög góðar undirtektir og er frekari þróun fyrirhuguð.

Í sama mánuði hlaut fyrirtækið styrki frá Tækniþróunarsjóði og Iðnaðarráðuneytinu ásamt tilnefningu til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands. Sú tilnefning tengist fyrsta fjölspilunar-tölvuleiknum á Facebook sem stjórnað er með hugaraflinu einu saman og nefnist Gods and Mortals.

MindGames er alþjóðlegur frumkvöðull, sem þroskaðist gegnum Gullegg Innovit, sprotaumhverfi Hugmyndahússins og stuðningskerfi Viðskiptasmiðjunnar/Klak. Fyrirtækið framleiðir m.a. svokallað „Mind Training“ leiki, eða heilastýrða hugþjálfunartölvuleiki.