Samtök atvinnulífsins á Norðurlöndunum sendu í dag bréf til forsætisráðherra Norðurlanda og umhverfisráðherra auk forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins þar sem hvatt er til þess að stjórnvöld og atvinnulíf vinni saman að því að finna lausnir á loftslagsvandanum. Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, ritar undir bréfið fyrir hönd SA en Geir H. Haarde, forsætisráðherra Íslands og Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, fengu það sent í dag ásamt öðrum forsætisráðherrum og umhverfisráðherrum Norðurlanda og Jose Manuel Barroso hjá ESB.

Í bréfinu kemur fram að samtök atvinnulífsins á Norðurlöndum ræði nú af fullum þunga um leiðir til að vinna gegn þeim loftslagsbreytingum sem eru að eiga sér stað. Samtökin hafa jafnframt tekið saman tillögur um hvernig hægt sé að ráðast gegn vandanum en það er mat þeirra að án aðkomu atvinnulífsins verði vandinn ekki leystur – atvinnulífið sé hluti af lausninni.