Forsætisráðherra montar sig af því að atvinnuleysi er minna en búist var við. Hið rétta er að minna atvinnuleysi stafar af fólksflutningum. Þetta sagði Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Alþingi kom aftur saman í dag eftir hlé.

„Getur ríkisstjórnin sagt að það hafi verið unnið eitthvert kraftaverk í þessum málum,“ spurði Birkir Jón.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði að mikið hafi áunnist í erfiðu árferði. Sagði hún að vaxtakostnaður ríkisins sé nú 75 milljarðar króna sem er þungur baggi. Hún hafi þó áhyggjur af miklu atvinnuleysi, sérstaklega langtímaatvinnuleysi.

Í fyrirspurnatíma Alþingis í dag hafa þingmenn tekist á um aðgerðir stjórnvalda. Þingmönnum er nokkuð heitt í hamsi og mikið um framíköll.