Mikill uppgangur var á íslenska vinnumarkaðnum á síðasta ári sem hefur stuðlað að minna atvinnuleysi og betri atvinnuhorfum, segir greiningardeild Kaupþings banka.

Líklegt þykir að atvinnuhorfur haldist góðar á meðan uppsveifla er í hagkerfinu.

Atvinnuleysi mældist 2,1% árið 2005 og voru að meðaltali um 1.450 færri á atvinnuleysisskrá miðað við árið 2004 þegar atvinnuleysi mældist 3,1%, segir greiningardeild Kaupþings banka.

Þetta jafngildir um 31,6% minna atvinnuleysi milli ára.

Atvinnulausum fækkaði að meðaltali um 1.771 miðað við desember 2004. Það jafngildir um 43% fækkun síðastliðna 12 mánuði. Atvinnuleysi í desember 2004 mældist 2,7%.

Atvinnuleysi í desember síðastliðnum mældist 1,5% og helst því óbreytt frá fyrri mánuði, segir greiningardeildin.