Hagnaður Mannvit, einnar stærstu verkfræðistofu landsins, nam 26,6 milljónum króna á síðasta ári og lækkaði úr 31,7 milljónum króna árið áður. Drógust bæði tekjur félagsins og útgjöld saman á árinu, tekjurnar þó sýnu meira eða um hálfan milljarð í 5,2 milljarða. Útgjöldin fóru úr 5,6 milljörðum í 5,2 milljarða.

Eigið fé félagsins lækkaði úr tæplega 1,2 milljörðum í 853 milljónir króna í árslok og er það 36,5% af 2,3 milljarða eignum félagsins en hlutfallið var 43% árið áður þegar heildareignirnar námu 2,7 milljörðum króna. Skuldirnar fóru á sama tíma úr 1.523,7 milljónum í 1.481,4 milljónir króna.

Félagið keypti eigin bréf fyrir um 50 milljónir á árinu og fækkaði hluthöfum um 26. Mannvit sjálft er stærsti hluthafinn með tæplega 15% en næst stærsti eigandinn er félagið M2015 ehf. með ríflega 13%. Aðrir stórir hluthafar með ríflega 2% eru Eggert Aðalsteinsson, Þröstur Helgason, Tryggvi Jónsson, Skapti Valsson, Sigurður Sigurjónsson, Gunnar Sverrir Gunnarsson og Valgeir Kjartansson. Örn Guðmundsson er forstjóri Mannvit.