Samningum á milli Seðlabanka Íslands og fimm sparisjóða lauk rétt fyrir áramót, þar sem Seðlabankinn eignaðist 49,5-91% af stofnfé þeirra. Í tilkynningu frá Seðlabankanum segir að í samráði við Fjármálaráðuneytið hafi sparisjóðunum verið boðið að semja um uppgjör á skuldum sínum við Seðlabankann. Í upphafi byggði endurskipulagning á neyðarlögunum, sem heimila fjármálaráðherra að leggja sparisjóðunum til stofnfé sem nemur allt að 20% af bókfærðu eigin fé þeirra.

Í ljós kom að staða sjóðanna var verri en talið var og að heimild neyðarlaganna dygði ekki. Segir að sjóðirnir hafi því þurft á aðkomu kröfuhafa að halda ef endurskipulagning væri möguleg.

Þá kemur fram að endurheimtur krafna á sparisjóðina verða mun lægri en þau innlán sem Seðlabankinn tók yfir við fall Sparisjóðabankans. Alls voru felldar niður kröfur fyrir um 4,6 milljarða króna en tæplega 4 milljarðar fengust endurheimtir.

Mat Seðlabankans að minna fengist með þroti

Viðskiptablaðið sendi Má Guðmundssyni seðlabankastjóra svohljóðandi fyrirspurn, þar sem vísað er í fréttatilkynningu bankans:

Á hvaða rökum var sú ákvörðun byggð að hið opinbera taki yfir Sparisjóðina fimm (auk SpKef), í ljósi þess að „staða sparisjóðanna [var] verri en áður var talið og kom í ljós að framlag samkvæmt neyðarlögunum myndi ekki duga til að endurreisa þá fjárhagslega?“

Það er: Hvers vegna var þeim bjargað frá gjaldþroti?

Svar Más Guðmundssonar:

„Það er misskilningur að það hafi falist í ákvörðuninni „að hið opinbera tæki yfir sparisjóðina fimm“. Eftir fall bankanna voru þeir allir undir lágmarki FME um eigið fé. Seðlabankinn þurfti að innheimta kröfur sem hann hafði fengið við fall Sparisjóðabankans og það var mat hans að minni verðmæti hefðu fengist með því að setja þessa sparisjóði í þrot. Til þess að þeir yrðu starfhæfir og gætu þar með greitt kröfur sínar, þ.m.t. til Seðlabankans, varð bankinn að taka þátt í fjárhagslegri endurskipulagningu þeirra með því að fá greitt að hluta til í stofnfjárbréfum.

Einnig var það talið mikilvægt að varðveita einhverja sparisjóði þar sem annars er hætt við að fjármálakerfið verði áhættusamara en ella vegna fábreytni, en því ólíkari sem starfsgrundvöllur og viðskiptalíkan fjármálastofnana eru því ólíkari verður áhættumynstur þeirra að öðru óbreyttu. Þá liggur það í eðli sparisjóða að fari þeir í gjaldþrot eru líkurnar á að nyìir rísi minni en í tilfelli hlutafélagabanka þar sem hin staðbundna taug brestur.“

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .