Olíu og gasfyrirtæki munu eyða 1.000 milljörðum minna á árunum 2015-2020 í að leit og uppbyggingu nýrra vinnslusvæða vegna lækkandi olíuverðs. Þetta segir ráðgjafafyrirtækið Wood Mackenzie sem býst við að fjárfestingar til framtíðar yrðu 22% lægri en þeir spáðu fyrir tveimur árum, áður en verð fóru að lækka.

Samdráttur en sveigjanleiki í Bandaríkjunum

Olíuiðnaðurinn í Bandaríkjunum, þar með talið í olíuleirstein (e. shale gas), hefur þurft að skera mest niður en einnig er búist við að Rússland haldi aftur af fjárfestingum. Jafnvel er minna um fjárfestingar í Sádi Arabíu og fleiri löndum í miðausturlöndum.

Sveigjanleikinn í olíuiðnaðinum í Bandaríkjunum er mun meiri en víðast hvar í heiminum enda tekur það tiltölulega stuttan tíma að koma borholu í gagnið samanborið við að koma á fót risaverkefnum á óaðgengilegri stöðum.

Offramboð af olíu

Spá þeir að þessar minnkandi fjárfestingar muni draga úr olíu og gasframleiðslu á næsta ári um 4%, en það muni minnka offramboðið sem þrýst hefur verðinu niður. Mögulega muni það tryggja hækkandi verð til lengri tíma. Væntingar um að olíuverð verði í kringum 50 Bandaríkjadali á tunnuna á komandi árum benda til þess að mörg möguleg olíu- og gasverkefni muni ekki borga sig.

Goldman Sachs spáir því að væntanleg framleiðsluverkefni að virði 550 milljarða dala muni verða lögð á hilluna ef olíuverð haldist við 55 Bandaríkjadali á tunnuna. Hefur ExxonMobil dregið úr fjárfestingum sínum úr 42,5 milljörðum dala árið 2013 í 23 milljarða samkvæmt áætlunum þessa árs. Á sama tíma er Chevron að draga úr sinni eyðslu frá 41,9 milljörðum í 25 milljarða.