Launabil kynjanna hjá félögum í ensku úrvalsdeildinni er mun meira en hjá breskum fjárfestingabönkum á borð við HSBC og Goldman Sachs að því er Bloomberg greinir frá.

Ný bresk reglugerð skyldar stóra vinnustaði til að gefa upp launabil kynjanna. Southampton reið fyrst á vaðið meðal úrvalsdeildarliða en þar fá konur að meðaltali 84% lægri laun en karlar, sem er hæsta launabil hjá nokkru bresku fyrirtæki sem birt hefur slíka tölfræði hingað til.

Hjá HSBC er launabilið þó umtalsvert eða 59% og 56% hjá Goldman Sachs. Breska fatakeðjan Phase Eight var með hæsta launabilið eða 65%, þar til ensku úrvaldsdeildarliðin fóru að gefa upp launamun kynjanna.

Everton, lið Gylfa Þórs Sigurssonar, greiðir konum að jafnaði 75% lægri laun en körlum.

Önnur félög hyggjast flest gefa upp launabil sitt í næstu viku, þegar þau neyðast til að gera það samkvæmt reglugerðinni.

Meðalárslaun karlkyns leikmanna í ensku úrvalsdeildinni er 2,64 milljónir puna eða nærri 370 milljónir króna. Sum liðanna halda einnig úti kvennaliði og þá er fjöldi starsmanna fyrirtækjanna að jafnaði einnig konur.

Þessi munur á þó ekki við um öll knattspyrnulið. Utandeildarliðið Lewes ákvað að greiða kvennaliði sínu sömu laun og karlarnir til að vekja athygli á ójafnri stöðu kynjanna.