Minna tap hefur verið á rekstri Eurotunnel á fyrsta árshelmingi, segir í Financial Times. Kemur það til vegna uppsagna starfsfólks, hagræðingar í rekstri sem og vegna samgönguvandamála í Calais í N-Frakklandi. Hefur þetta bætt rekstrarafkomu fyrirtækisins.

Samgöngufyrirtækið Eurotunnel er skuldum vafið en á fyrstu sex mánuðum ársins minnkuðu skuldir um 18 milljónir punda og eru nú 87 milljónir punda. Jaðartekjur og veltufjármagn jókst og við það hækkaði sjóðsstreymi um 16 milljónir punda og er það nú um 140 milljónir punda.

Fyrr á árinu urðu skemmdir á höfninni í Calais í norðurhluta Frakklands, hafa þeir sem áður ferðust sjóleiðis yfir sundið orðið að nýta sér þjónustu Eurotunnel. Til dæmis nýttu mun fleiri fólksbílar og vöruflutningabílar sér göngin og varð 6% aukning á hagnaði Eurotunnel eða um 146 milljón punda.

Hins vegar var tekjuaukning hjá lestarferðunum aðeins 1 milljón punda en heildartekjur á fyrsta árshelmingi voru um 117 milljónir punda.

Talsmenn fyrirtækisins hafa látið hafa eftir sér að minni markaðs-, trygginga- og auglýsingakostnaður hafi hjálpað til við að ná fram betri skuldastöðu. Eins hefði fyrirtækið lækkað kostnað af starfsmannahaldi. Þessi atriði hefðu dregið úr rekstrarkostnaði svo nemur 4 milljónum punda en hann er nú um 127 milljónir punda.

Heildarrekstrartekjur Eurotunnel hækkuðu um 12 milljónir punda eða heil 19% og eftir fyrsta árshelming eru þær 74 milljónir punda.

Sviptingar hafa verið í rekstri félagsins á þessu ári. Í febrúar sl. var stjórn fyrirtækisins tekin til endurskoðunar eftir hluthafafund. Jacques Gounon var skipaður nýr stjórnarformaður eftir að hann hafði lofað að minnka hallarekstur fyrirtækisins um þriðjung.

Gengi hlutabréfa í Eurotunnel hefur hækkað um 2 cent eða um 8% og fór upp í 27 cent.