Tap Atorku Group árið 2010 nam 3,4 milljörðum króna samanborið við 23,5 milljarða króna tap árið 2009. Skýrist munurinn á milli ára nær eingöngu af mun hagstæðari fjármagnsliðum í rekstrarreikningi. Þannig námu vaxtagjöld árið 2010 1,3 milljörðum króna, en voru 9,5 milljarðar árið 2009. Rekstrartekjur drógust saman á árinu, voru 2,1 milljarður árið 2009, en 1,5 milljarðar í fyrra. Á móti kemur að rekstrarkostnaður fór úr 4,4 milljörðum króna árið 2009 í 1,9 milljarða í fyrra. Í ársreikningi er þess getið að í ársbyrjun 2011 var gengið frá nauðasamningum og samkvæmt þeim er eigið fé Atorku 10,7 milljarðar króna en skuldir 73,3 milljarðar.