184 megavött af raforku gætu bæst við íslenska orkumarkaðinn á næstu árum ef átta virkjanakostir á vegum fjögurra minni raforkufyrirtækja verða nýttir. Um er að ræða einn virkjanakost í nýtingarflokki rammaáætlunar, þrjá kosti í biðflokki, einn kost sem bíður umhverfismats og þrjá kosti þar sem rannsóknarleyfi hefur verið úthlutað.

Áhugi á því að reisa litlar vatnsaflsvirkjanir hefur aukist undanfarið, ekki síst þar sem hækkandi raforkuverð hefur gert marga slíka kosti hagkvæma. Sjálfstæðir aðilar eru í fararbroddi í nýtingu slíkra kosta miðað við útgefin rannsóknar- og virkjanaleyfi og drög að lokaskýrslu þriðja áfanga rammaáætlunar.

Vilja virkja á Vestfjörðum

Reyndar vinna ný fyrirtæki í raforkuframleiðslugjarna með stærri og reyndari aðilum á markaðnum, sérstaklega þegar kemur að því að fjármagna og reisa virkjanirnar. VesturVerk hyggst reisa Hvalárvirkjun, 55 megavatta virkjun í Ófeigsfirði á Ströndum. HS Orka á rúmlega helmingshlut í félaginu og hefur bætt við eignarhlut sinn undanfarin misseri. Aðrir eigendur VesturVerks eru Gunnar Gaukur Magnússon, Valdimar Steinþórsson og Hallvarður Aspelund.

Gunnar Gaukur er framkvæmdastjóri VesturVerks og í samtali við Viðskiptablaðið segir hann að von sé á tillögum á matsáætlun vegna virkjunarinnar á allra næstu dögum. Stóra spurningin snúi að afhendingarstað raforkunnar, en Landsnet sér alfarið um allar línur vegna virkjunarinnar. Hvalárvirkjun er í nýtingarflokki rammaáætlunar. „Ef allt fer á besta veg, ef þetta gengi allt upp núna fljótlega og við kæmumst í gang í sumar, þá gætum við byrjað að framleiða 2020,“ segir Gunnar.

Þá hefur Orkustofnun úthlutað VesturVerki rannsóknarleyfum vegna þriggja virkjunarkosta við sunnanvert Ísafjarðardjúp. Þessir virkjanakostir, sem eru innan af Ísafirði, Hestfirði og Skötufirði, gætu framleitt samtals 37 megavött raforku.