Fjárfestingar í nýstofnuðum fyrirtækjum í Bandaríkjunum minnkuðu um 5%, og voru 7,1 milljarður dala, fyrstu þrjá mánuði ársins, miðað við sama tíma í fyrra samkvæmt frétt Reuters.

Forseti félags áhættufjárfesta í Bandaríkjunum (NVCA), Mark Heesen, telur að þróunin gæti orðið sú að áhættufjárfestar leggi sitt fjármagn inn í fyrirtæki sem eru lengra komin en þeir hafa gert hingað til, vegna þess hversu veikur markaður fyrir fyrstu útboð verðbréfa er um þessar mundir.

Venjulega fjárfesta þeir í nýjum fyrirtækjum og hagnast svo á því þegar þau fara á markað eða eru seld öðrum stærri fyrirtækjum.

Mest fjármagn lögðu áhættufjárfestar í lífvísindaiðnað á fyrsta ársfjórðungi, eða 2,3 milljarða Bandaríkjadala og næstmest í ýmis internet-fyrirtæki, 1,3 milljarða dali.