Enginn íslenskra viðskiptabanka nær þeirri stærð sem talin hefur verið hagkvæmust í rekstri banka og hefur verið metin 25 milljarðar Bandaríkjadala eða 3.250 milljarðar íslenskra króna. Er það meðal annars ástæða þess að vaxtamunur er mikill hér á landi. Þetta kemur fram í nýrri greiningu fjármálaráðgjafar Capacent á íslenskum bankamarkaði frá 1997 til 2014.

Nýjustu rannsóknir benda til þess að þessi hagkvæmnistærð nemi nú á bilinu 50 til 100 milljörðum dala, eða 6.500 til 13.000 milljörðum íslenskra króna, og eru íslensku bankarnir því örsmáir í slíkum samanburði.

Í könnuninni kemur fram að vaxtamunur íslenskra banka sé hár í alþjóðlegum samanburði en skoða verði þó vaxtamuninn í rekstrarlegu og sögulegu samhengi. Á eftirfarandi mynd má sjá þróun vaxtamunar viðskiptabanka frá árinu 1997 til 2014. Þannig má sjá að vaxtamunur var í lágmarki þegar viðskiptabankakerfið var stærst og í hámarki þegar kerfið var minnst.

© Aðsend mynd (AÐSEND)