Eyjan Bjarkarnautur seldist skömmu eftir að hún var sett á sölu nú á laugardaginn. Þetta kemur fram á forsíðu Morgunblaðsins í dag. Pétur Kristinsson hjá Fasteigna- og skipasölunni Snæfellsness segir í samtali við Morgunblaðið að eyjan hafi verið hæfilega stór eða 25 hektarar og bendir á að auðveldara sé að selja minni eyjar.

Magnús Leópoldsson, eigandi Fasteignamiðstöðvarinnar, er sammála því að minni eyjur séu vinsælli en hann sér um sölu Svefneyja, sem liggja í miðjum Breiðafirði. Hann segir í samtali við Morgunblaðið að fátítt sé að eyjar í Breiðafirði séu til sölu og ástæðan sé oftast sú að eigendur séu margir og þeim haldi áfram að fjölga með hverri kynslóð. Hann segir talsverðan áhuga vera á Svefneyjum en eignin sé þó enn óseld.