„Ekki má gleyma því að sú hagræðing sem hefur einmitt orðið í sjávarútvegi stafar að miklu leyti af þeirri tæknivæðingu sem hefur orðið í greininni. Á sama tíma hefur þetta orðið til þess að störfum hefur fækkað. Hvern hefði grunað að sjávarútvegsfyrirtæki myndu e.t.v. renna hýru auga til fyrri tíðar við uppsetningu reksturs síns? Þetta getur varla lofað góðu. Einnig er áhugavert að á sama tíma og leitað er logandi ljósi að leiðum til að auka fjárfestingu í landinu er ýmislegt sem bendir til þess að gjaldtakan eins og hún er sett upp hafi áhrif á hvata fyrirtækja til að fjárfesta, burt séð frá skuldastöðu fyrirtækjanna.“

Þetta kemur fram í markaðspunktum greiningardeildar Arion banka í dag. Þar er fjallað stofninn sem veiðigjaldið er reiknað af samkvæmt nýju frumvarpi til laga um veiðigjöld og stjórn fiskveiða. Niðurstaðan er sú að fyrirkomulag veiðigjaldsins dragi úr hvata sjávarútvegsfyrirtækja til fjárfestingar.

Rekstrarkostnaður í formi launa er frádráttarbær frá veiðigjaldsstofninum en sá hluti rekstrarkostnaðar vegna fjármagns sem endurspeglast í afskriftum er ekki frádráttarbær. Þau ár þar sem árgreiðslan vanmetur hlut afskrifta og fjármagnskostnaðar í rekstrinum gefur þetta brenglaða mynd af hagnaði sjávarútvegsfyrirtækja. Þetta gæti dregið úr tæknivæðingu og hvatt til starfsmannafrekari framleiðslu.

Í markaðspunktunum segir jafnframt:

„Þessi staða dregur því úr fjárfestingarvilja og gæti haft áhrif á uppsetningu fyrirtækja, þ.e.a.s. starfsmannafrek framleiðsla gæti e.t.v. orðið meira heillandi en áður, þar sem starfsmannakostnaði er hyglt.“