Samkvæmt samþykktri fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 er gert ráð fyrir að borgarsjóður taki allt að 25 milljarða króna að láni á árinu. Í greinargerð með áætluninni kemur fram að lántakan muni aðallega fara fram með útgáfu skuldabréfa, en borgin er í dag með sex skuldabréfaflokka skráða á markað. Það sem af er ári hefur Reykjavíkurborg selt skuldabréf fyrir tæplega 10 milljarða króna og á því eftir að fjármagna sig um 15 milljarða króna á árinu, en takmarkaður áhugi hefur verið á meðal fjárfesta í síðustu tveimur skuldabréfaútboðum borgarinnar.

Valdimar Ármann, forstöðumaður eignastýringar Arctica Finance nefnir að heildarskuldabréfaútgáfa á árinu sé í raun ekki mikil sem ætti að henta Reykjavíkurborg ágætlega miðað við sína útgáfuáætlun. „Ríkissjóður dróg töluvert úr sinni fjármögnunarþörf á árinu en einnig eru gömlu verðtryggðu íbúðabréfin farin að greiðast frekar hratt upp. Þegar fjárfestar fá endurgreiðslur af íbúðabréfunum geta þeir til að mynda fjárfest í skuldabréfum borgarinnar. Í ljósi þess hversu stór aðili ríkissjóður er yfirleitt á skuldabréfamarkaði, þá er þetta ekki mjög slæmur tími fyrir borgina til að auka sína útgáfu.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.