Störfum í bandarísku efnahagslífi fjölgaði um 96 þúsund í september síðastliðnum, en hagfræðingar höfðu spáð mun meiri fjölgun starfa eða nær 150 þúsund. Í ágúst fjölgaði störfum um 144 þúsund.

Þetta er í síðasta skipti fyrir komandi forsetakosningar sem tölur um ný störf verða birtar og þær kunna að hafa töluverð áhrif á kosningarnar. George Bush hafði vonast til þess að spár hagfræðinga gengu eftir. Minni fjölgun kann því að vera vatn á myllu demókrata og Johns Kerrys, sem hefur gagnrýnt frammistöðu forsetans í efnahagsmálum.

Kappræður verða í kvöld (í nótt að íslenskum tíma) milli forsetaframbjóðendanna í annað sinn. Þar mun Kerry án efa leggja áherslu á að nýjar tölur um fjölgun starfa sýni að þeim hafi í raun fækkað í forsetatíð Bush. Forsetinn mun hins vegar benda á að 96 þúsund ný störf bendi til góðs vaxtar í efnahagslífinu og að framtíðin sé því björt.