*

mánudagur, 26. júlí 2021
Innlent 7. október 2014 08:00

Minni framlegð í sjávarútvegi

Skattgreiðslur sjávarútvegsfyrirtækja fara vaxandi en alls greiddu þau 21,5% af heildarsköttum á tekjur og hagnað lögaðila árið 2013.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Rekstrarhagnaður sjávarútvegsfyrirtækja fyrir afskriftir (EBITDA) lækkaði um 20% milli áranna 2012 og 2013 og hefur ekki verið lægri í hlutfalli af tekjum í átta ár. Þetta kemur meðal annars fram í greiningu Deloitte á reikningum sjávarútvegsfyrirtækja. Morgunblaðið greinir frá.

Í greiningu Deloitte kemur einnig fram að skattgreiðslur sjávarútvegsfyrirtækja hefðu farið vaxandi. Alls greiddu þau 21,5% af heildarsköttum ríkissjóðs á tekjur og hagnað lögaðila á árinu 2013.

Jónas Gestur Jónasson, sviðsstjóri viðskiptalausna hjá Deloitte, segir í samtali við Morgunblaðið að samdráttur framlegðar skýrist fyrst og fremst af lægra afurðaverði og styrkingu krónunnar. Skattgreiðslur hafi hins vegar aukist undanfarin ár í takti við bætta afkomu fyrirtækjanna vegna hagstæðra ytri skilyrða í markaðsverði, aflabrögðum og gengi. Einnig hafi sjávarútvegsfyrirtæki átt inni yfirfæranlegt skattalegt tap sem nú sé að verða fullnýtt.