Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, er þeirrar skoðunar að róttækar breytingar þurfi á íslenska vinnumarkaðsmódelinu. Ísland sé „í allt annarri heimsálfu“ en önnur iðnríki hvað varðar launahækkanir að undanförnu. Kom þetta fram á fundi á vegum Félags atvinnurekenda í vikunni.

Aðspurður hvort ekki væri eðlilegt að íslenskir launþegar gerðu kröfur um sambærileg kjör og launafólk annars staðar á Norðurlöndum, svaraði Þórarinn neitandi. Vegna þess að framleiðni atvinnulífsins væri minni hér en í öðrum norrænum ríkjum yrðu laun líka að vera lægri.

Þórarinn beindi meðal annars orðum sínum til atvinnurekenda á fundinum og sagði þá að nokkru leyti bera ábyrgð á því að framleiðni væri hér lélegri en í samkeppnislöndunum.

„Við getum bölsótast yfir þessu þangað til við erum blá í framan en svona er þetta bara; ef við viljum hækka launastigið þá verðum við að hækka framleiðnistigið,“ sagði Þórarinn.