Litlar breytingar urðu á þróun íbúðaverðs á öðrum ársfjórðungi frá þeim fyrsta í stærri þéttbýliskjörnum landsins að því er fram kemur í Hagsjá Landsbankans .

Mesta breytingin varð á Akureyri þar sem íbúðaverð hækkaði um 3% á milli fyrsta og annars ársfjórðungs. Í Árborg og á höfuðborgarsvæðinu stóð verð í stað, en lækkaði um 1% í Reykjanesbæ og hækkaði um 1% á Akranesi.

Sé litið til þróunar frá því á öðrum ársfjórðungi í fyrra hefur íbúðaverð hækkað mest á Akranesi, um tæp 10% milli ára. Minnstu hækkunina er að finna í Reykjanesbæ þar sem íbúðaverð hefur einungis hækkað um 0,3% milli ára. Alls staðar eru minni verðhækkanir milli ára á öðrum ársfjórðungi en þeim fyrri. Nú mælast hækkanir á bilinu 0-10% en voru 3-16% milli ára á fyrsta ársfjórðungi.