Samanlagður hagnaður Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans dróst saman á fyrri hluta ársins, ef miðað er við sama tímabil í fyrra. Þetta kemur fram í grein Fréttablaðsins. Samtals högnuðust bankarnir þrír um 35,06 á fyrri hluta þessa árs, miðað við 42,5 milljarða í fyrra.

Hagnaður af reglulegri starfsemi dróst annað hvort saman eða hélst í stað á milli ára hjá bönkunum. Hagnaður af reglulegri starfsemi hjá Arion banka dróst til að mynda saman um 5 milljarða milli ára og fór úr 7,8 milljörðum á fyrri hluta ársins í fyrra og niður í 2,8 milljarða fyrri hluta þessa árs. Hjá Íslandsbanka þá hélst hagnaður af reglulegri nokkuð stöðugur, hann var 8 milljarðar fyrri hluta árs 2016, samanborið við 8,2 milljarða í fyrra.

Kjarasamningar hafa áhrif

Einnig er tekið fram í fréttinni að við tilkynningu á árshlutauppgjörum bankanna hafi komið fram að rekstrarkostnaður bankanna hafi aukist. Þetta skýrst meðal annars vegna hærri launakostnaðar, sem hækkaði talsvert við nýja kjarasamninga. Bankarnir hafa gert ráðstafanir um fækkun útibúa til að að draga úr launakostnaði. Um þetta hefur verið skrifað á vef Viðskiptablaðsins. Þar ber hæst að nefna fækkanir útibúa Íslandsbanka, einnig mun Landsbankinn einfalda útibúanet sitt.