Hagnaður Hampiðjunnar nam 2,6 milljónum evra á fyrri hluta árs. Þetta jafngildir tæpum 400 milljónum króna. Á sama tíma í fyrra nam hagnaður Hampiðjunnar 4,2 milljónum evra.

Fram kemur í uppgjöri Hampiðjunnar að rekstrartekjur samstæðu Hampiðjunnar hafi numið 26,3 milljónum evra á tímabilinu sem var 0,8% minna en á sama tíma  í fyrra. Minni sala í Danmörku var vegin upp af innkomu Swan Net USA í samstæðuna, að því er segir í uppgjörinu. Rekstrarhagnaður fyrir aðrar tekjur og gjöld var 3,8 milljónir evra sem var 200 þúsund evrum meira en á sama tíma í fyrra.

Í uppgjörinu er haft eftir Hirti Erlendssyni, forstjóra Hampiðjunnar, að salan á fyrri hluta ársins var svipuð og á sama tíma í fyrra þrátt fyrir erfiðar markaðsaðstæður í Danmörku. Velta Swan Net USA sem bætist við samstæðuna á þessu ári hafi að mestu vegið upp minni sölu þar.