Hagnaður tíu stærstu útgerðarfyrirtækja landsins sé miðað við veltu, dróst saman um 27% milli áranna 2016 og 2017. Hagnaður fyrirtækjanna tíu nam 36,8 milljörðum króna árið 2016 en 27 milljörðum króna árið 2017 og lækkaði því um 10 milljarða króna milli ára. Mest eru umsvif Samherja sem hagnaðist um 14 milljarða króna undanfarin þrjú ár. Hagnaður HB Granda og Síldarvinnslunnar sem á eftir koma hefur hins vegar dregist saman um ríflega helming frá árinu 2015, en hagnaðurinn nam tæpum 3 milljörðum króna hjá báðum fyrirtækjum á síðasta ári.

Heildarvelta fyrirtækjanna tíu nam 187 milljörðum króna árið 2017 og hefur lækkað um 14% frá árinu 2015 þegar veltan nam 216 milljörðum króna. Samhliða minni tekjum lækkuðu meðallaun félaganna tíu úr 828 þúsund í 767 þúsund krónur á milli áranna 2016 og 2017. Fjöldi ársverka fyrirtækjanna var tæplega 4.500 árið 2017.

Afkoman verið sögulega góð

Afkoma sjávarútvegsins hafi verið mjög góð í sögulegu samhengi á árunum 2010 til 2016. Þar spilaði hagstætt gengi krónunnar talsverðu máli enda er uppistaðan í tekjum sjávarútvegsfyrirtækja í erlendri mynt. Að sama skapi hefur styrking á gengi krónunnar undanfarin ár komið niður á grunnrekstri greinarinnar. Gengisstyrking getur einnig haft í för með sér gengishagnað af erlendum lánum sé gert upp í krónum þar sem hærra gengi þýðir að erlend lán lækka í krónum talið, og þar með myndast gengishagnaður.

Á árunum 2015 til 2017 styrkist gengi krónunnar um 25% miðað við gengisvísitölu Seðlabankans en sú þróun hefur snúist við eftir gengisveikingu undanfarinna vikna. Þá benda bráðabirgðatölur Hagstofunnar til þess að verð sjávarafurða í erlendum gjaldmiðlum á fyrstu átta mánuðum ársins hafi verið 4,4% miðað við fyrir ári. Á móti hefur olíuverð hækkað um helming undanfarið ár. Þá er helst óvissa hvað varðar aflamark uppsjávartegunda, sér í lagi hvað varðar loðnu. Hafrannsóknastofnun lagðist gegn því að loðnuveiðar yrðu leyfðar á yfirstandandi vertíð, en stofnunin hyggst endurskoða ráðgjöf sína í upphafi næsta árs.

Lægsti hagnaður frá 2009

Samkvæmt gagnagrunni Deloitte um afkomu sjávarútvegsfyrirtækja var EBITDA framlegð, það er rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði sem hlutfall af veltu, að meðaltali 27% á árunum 2007 til 2016. Framlegðarhlutfallið lækkaði í 18% á síðasta ári. Hlutfallið er undir meðaltals EBITDA framlegð í greininni síðustu 25 ára. Á síðasta ári nam hagnaður fyrirtækjanna, samkvæmt gagnagrunninum, 27 milljörðum króna sem er lægsti hagnaður í sjávarútvegi frá árinu 2009 þegar hagnaðurinn var 11 milljarðar króna. EBITDA framlegð í öllum flokkum útgerða versnaði milli áranna 2016 og 2017. Hjá félögum í botnfiskútgerð lækkaði EBITDA framlegð úr 25% í 20% milli ára, í botnfiskútgerð og vinnslu úr 17% í 13% milli ára og a, á árunum 2010-2016.

Þetta hefur haft í för með sér að eiginfjárhlutföll útgerðarfyrirtækja hafa batnað verulega. Samkvæmt gögnum frá Hagstofu Íslands þurrkaðist eigið fé sjávarútvegsins út í bankahruninu árið 2008 en hefur síðan þá farið stighækkandi og nam eiginfjárhlutfall sjávarútvegsfyrirtækja 44% í árslok 2016.

Arðgreiðslur og fjárfesting aukist Þá hafa arðgreiðslur í sjávarútvegi hækkað töluvert undanfarin ár og námu 14,5 milljörðum króna á síðasta ári samkvæmt gagnagrunni Deloitte og hafa aldrei verið hærri en sem hlutfall af afkomu greinarinnar nam það 26%. Fjárfesting í sjávarútvegi hefur einnig aukist töluvert undanfarin ár. Á árunum 2014-2017 nam fjárfesting í sjávarútvegi að meðaltali 24 milljörðum króna en til samanburðar var fjárfesting áranna 2006-2013 að meðaltali 9 milljarðar króna. Sjávarútvegsfyrirtæki greiddu 6,8 milljarða í veiðigjöld árið 2017 miðað við 6,4 milljarða króna árið 2016, 7,5 milljarða 2015 og 8,1 milljarð króna árið 2014.

Nánar er fjallað um málið í 300 stærstu , sérriti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar Verslunar. Hægt er að kaupa bókina hér .