*

miðvikudagur, 15. júlí 2020
Innlent 31. október 2019 21:13

Minni hagnaður Icelandair yfir sumarið

Hagnaður Icelandair í júlí, ágúst og september dróst eilítið saman milli ára. Afkomuspá sýnir minna mögulegt tap.

Ritstjórn
Bogi Nils Bogason er forstjóri Icelandair
Haraldur Guðjónsson

Hagnaður Icelandair á þriðja ársfjórðungi nam tæplega 61,5 milljón Bandaríkjadölum, eða sem samsvarar 7,6 milljörðum íslenskra króna. Á sama tíma í fyrra nam hagnaðurinn nam 62 milljónum dala, en tekjurnar að frádregnum leigukostnaði flugvéla og áhafna drógust saman um 2%, úr 535,2 milljónum í 533,9  milljónir dala.

Rekstrarkostnaðurinn dróst saman milli ára, úr 430,2 milljónum dala í 401,3 milljónir dala. Farþegaaukning ferðamana til Íslands á þessum annasamasta tíma ársins, en ársfjórðungurinn nær yfir sumarmánuðina júlí og ágúst sem og september, nam 27%. Félagið uppfærði afkomuspá sína á dögunum og hækkaði hana um 35 milljón dali fyrir árið, í 35 til 55 milljón dala tap en lækkar nú efri mörkin í 45 milljón dali.

Í dag greiddi Boeing flugfélaginu aðra hlutagreiðslu bóta vegna 737 MAX véla félagsins sem ekki hefur verið hægt að nota vegna kyrrsetningar lungann úr árinu. Bogi Nils Bogason forstjóri segir þriðja ársfjórðunginn sýna bættan rekstur þrátt fyrir áhrif MAX vélanna, en hann segir helsta styrk félagsins vera sveigjanleikann í leiðarkerfi þess.

„Við höfum lagt áherslu á ferðamannamarkaðinn til Íslands til að svara aukinni eftirspurn og flutt um 30% fleiri farþega til landsins á háannatíma en fyrir ári, og áfram verður einblínt á það inn í árið 2020," segir Bogi sem segir að takist hafi að draga úr áhrifum kyrrsetningar MAX vélanna með kostnaðarhagræðingu.

„Á þriðja ársfjórðungi hefur okkur jafnframt tekist að ná árangri í því að vera á tíma sem hafi dregið mikið úr kostnaði." Ef horft er á fyrstu níu mánuði ársins nemur tapið nú 16,4 milljónum Bandaríkjadala, sem er um 10 milljónum meira tap en á sama tíma fyrir ári.