Rekstrarhagnaður dönsku stórverslunarinnar Magasin Du Nord í Danmörku nam 12,1 milljón danskra króna eftir skatta, eða sem svarar 141,6 milljónum íslenskra króna, að því er danska viðskiptablaðið Börsen greindi frá í gær. Stærsti eigandi Magasin Du Nord er Baugur Group.

Hagnaðurinn er mun minni en árið áður en þá nam hann 108,6 milljónum danskra króna eða tæplega 1,3 milljörðum íslenskra króna. Hagnaður fyrir skatta dróst verulega saman, en hann var 8,9 milljónir danskra króna á síðasta ári samanborið við 160,6 milljónir danskra króna árið 2005.

Í blaðinu er haft eftir talsmanni Magasin Du Nord að afkoman sé betri en vænst var vegna eignasölu og bjartsýni ríkir fyrir árabilið 2007-8. Velta fyrirtækisins jókst um 5% en reksturinn var að verulegu leyti endurskipulagður. Sé litið til ársins í heild nam veltuaukning 10% á fyrri hluta árs en október og nóvember stóðu ekki undir væntingum. Jólasala í desember var hins vegar góð.