Landsframleiðslan á fyrstu sex mánuðum ársins jókst að raungildi um 4,3% ef miðað er við sama tímabil í fyrra, en um 3,4% á öðrum ársfjórðungi miðað við sama ársfjórðung árið 2016. Hagvöxturinn á öðrum ársfjórðungi það ár nam 3,7% samkvæmt frétt Hagstofunnar frá þeim tíma . Árið 2016 var hagvöxturinn fyrri helming ársins þó lægri en á þessu ári eða 4,1%.

Þjóðarútgjöldin, sem er samtala neyslu og fjárfestingar, jókst um 6,7% á ársfjórðungnum, einkaneyslan jókst um 9,5%, samneyslan um 2,8% og fjárfesting um 5,8%. Árstíðarleiðrétt landsframleiðsla dróst hins vegar saman að raungildi um 1,1% frá fyrri ársfjórðungi í ár að því er Hagstofa Íslands greinir frá .

Innflutningurinn jókst tvöfalt á við útflutninginn á ársfjórðungnum, eða um 16,2% á móti 8,0%, en helstu drifkraftar hagvaxtarins hefur verið einkaneysla ásamt fjármunamyndun og samneyslu. Ef miðað er við fyrstu sex mánuðina jukust þjóðarútgjöldin um 5,2%, einkaneyslan um 8,3%, samneyslan um 2,2% og fjárfesting um 5,2%. Útflutningurinn jókst um 5,2% og innflutningurinn um 10%.