Hagvöxtur á Indlandi var 7,0% á ársgrundvelli á öðrum ársfjórðungi sem er undir væntingum, en að meðaltali höfðu sérfræðingar spáð 7,5% hagvexti á tímabilinu. Í frétt BBC segir að hagvöxturinn geti jafnvel verið enn minni, því hagvaxtartölurnar séu ekki í samræmi við aðrar hagtölur, sem bendi til mun minni vaxtar í hagkerfinu.

Hagvöxtur í Kína var einnig 7% á öðrum fjórðungi og eru löndin tvö nú þau þar sem hagvöxtur er mestur í heiminum. Kínverska hagkerfið er hins vegar að hægja á ferðinni og hafa sumir fjárfestar því horft til Indlands sem hugsanlegs arftaka sem drifkraftur heimshagkerfisins.

Í frétt BBC er haft eftir Shilan Shah hjá Capital Economics að opinberar hagvaxtartölur í Indlandi ýki styrk hagkerfisins, líklegast að mjög miklu leyti. Samkvæmt opinberu tölunum má rekja minni hagvöxt en búist var við til hægari vaxtar í framleiðslugeiranum. Hvort hagvöxtur á Indlandi tekur við sér á ný á þriðja fjórðungi ársins mun ráðast að stórum hluta af veðrinu, því venjulega á þessum árstíma er uppskera mikil og landbúnaðarstarfsmenn hafa því meira á milli handanna en á öðrum tímum ársins.