Titringur á mörkuðum vegna hrunsins á markaðnum með bandarísk undirmálslán (e. sub-prime mortgage) og samdráttur þar í landi munu hamla hagvexti í alþjóðahagkerfinu á þessu ári að mati Efnahags- og framfararstofnunarinnar (OECD). Þetta kemur fram í nýrri úttekt stofnunarinnar sem var kynnt í gær. Stofnunin spáir töluverðum samdrætti í bandaríska hagkerfinu.

Í úttektinni kemur meðal annars fram að sérfræðingar stofnunarinnar telja að samdrátturinn í bandaríska hagkerfinu verði töluverður og spá þeir 1,9% hagvexti þar í landi, í stað 2,1% í síðustu úttekt sem var gefin út í maí. Ástæðan er hald sérfræðinga stofnunarinnar að samdráttaráhrifin vegna niðursveiflunnar á bandaríska fasteignamarkaðnum séu mun meiri og djúpstæðari en áður var talið. Stofnunin telur jafnframt að brýnt sé að ráðast í úrbætur á regluverki svo hægt sé að vinna bót "alvarlegum misbrestum" á bandaríska fasteignamarkaðnum og alþjóðlegum skuldabréfamörkuðum.

Þrátt fyrir að OECD lækki væntingar sínar um hagvöxt í sjö stærstu hagkerfum heims um aðeins 0,1% eða niður í 2,2% á árinu er sá varnagli sleginn að hugsanlega er um ofmat að ræða. Ástæða þessa er að enn er of snemmt að meta raunveruleg áhrif leiðréttingar á verðlagningu á áhættu fjárfestinga á hagkerfi heimsins. Fram kemur í skýrslunni að hætta sé á meiri samdrætti en gert er ráð fyrir og á því að ókyrrð á fjármálamörkuðum verði viðvarandi.

Jean-Phillipe Credit, aðalhagfræðingur OECD, kynnti innihald skýrslunnar í gær. Fram kom í máli hans að sérfræðingar hennar telja að niðursveiflan á bandaríska fasteignamarkaðnum muni halda áfram og ómögulegt sé að leggja mat á hversu lengi hún muni vara. Ástandið á bandaríska fasteignalánamarkaðnum hefur, sem kunnugt er, haft víðtækar afleiðingar í alþjóðahagkerfinu og meðal annars valdið lausafjárþurrð á fjármálamörkuðum. Cotis telur miklar líkur á því að bandaríski seðlabankinn muni lækka vexti fyrr frekar en síðar. Hann tók hinsvegar fram að vaxtarákvarðanir ætti að taka útfrá aðstæðum í raunhagkerfinu og hvatti yfirvöld peningamála til þess að grípa ekki til aðgerða til þess að bjarga þeim sem væru í vandræðum vegna glannalegra fjárfestinga.

OECD gerir ráð fyrir að hagvöxtur muni aukast á síðari hluta ársins á ný á evrusvæðinu eftir að samdráttur varð á öðrum ársfjórðungi. Hinsvegar sagði Cotis að hugsanlega væri toppnum á núverandi hagsveiflu á evrusvæðinu náð. Gert er ráð fyrir undirliggjandi verðbólguþrýstingi á svæðinu og sérfræðingar OECD telja að Seðlabanki Evrópu muni hækka stýrivexti um leið og á núverandi ókyrrð á mörkuðum gengur yfir.

Gert er ráð fyrir áframhaldandi uppgangi í Japan en stofnunin telur hinsvegar að Japansbanki eigi að bíða með að hækka vexti þar til frekari sannanir um endalok verðhjöðnunartímabilsins komi fram og öldugangurinn á fjármálamörkuðum lægist.

Cotis hrósaði seðlabönkum heims fyrir að aðgerðir sínar í kjölfar þess að vart var við lausafjárskort á mörkuðum og sagði tímasetningu vandræðagangsins vegna bandarísku undirmálslánanna vera lán í óláni þar sem að hún ætti sér stað á uppgangstíma í alþjóðahagkerfinu í stað samdráttarskeiðs.