Gangi allt eftir verður 2,1% hagvöxtur hér á árinu, 3,0% á næsta ári og 3,1% árið 2015, samkvæmt hagspá IFS Greiningar. Hagvöxturinn verður drifinn áfram af fjárfestingu og auknum útflutningstekjum, þar með talið tekjum af erlendum ferðamennum, að því er segir í hagspánni.

Ferðamenn og sérfræðingar bæta stöðuna

IFS Greining segir raunlaun hafa hækkað um 8% frá ársbyrjun 2010 og raunskuldir heimila lækkað um 12,3%. Raunlaun og raunskuldir heimilanna muni áfram lækka. Þá segir IFS Greining hag skuldsettra heimila halda áfram að batna og einkaneysla  að aukast. Þessu til viðbótar gerur IFS Greining ráð fyrir því að afgangur af vöru- og þjónustuskiptum muni aukast á næstu árum. Mikill afgangur af þeim þjónustuskiptum sem IFS Greining sér í kortunum stafar af mikilli aukningu ferðamanna hingað til lands.

„Einnig teljum við að aðkeypt sérfræðiaðstoð, t.d. þrotabúa, muni fara minnkandi. Halli á liðnum „lögfræði og endurskoðunarþjónusta, viðskipta- og stjórnunarráðgjöf og almennatengsl“ í þjónustujöfnuði fór úr 15,1 ma.kr. árið 2011 í 24,5 ma.kr. árið 2012. Halli á þessum lið mun minnka hratt. Kaup á erlendri sérfræðiráðgjöf er að stórum hluta tengd þrotabúunum og hefur lítil langtímaáhrif á íslenskt hagkerfi,“ segir IFS Greining.