Útlit er fyrir að aukning kaupmáttar launa verði minni í ár en á síðasta ári. Þetta kemur fram í Morgunkornum Íslandsbanka. Á nýliðnu ári jókst kaupmáttur launa um nálega 3% sé miðað við þróun launavísitölu og vísitölu neysluverðs en útlit er fyrir að aukningin í ár verði ríflega 1%. Undanfarinn áratugur hefur verið launþegum hagfelldur og hefur kaupmáttur launa aukist um rúmlega 30% frá ársbyrjun 1996 til nóvemberloka 2005. Í því ljósi er kannski ekki furða að aðeins hægi á vextinum í ár. Einnig er rétt að hafa í huga að skattalækkanir sem til framkvæmda komu um nýliðin áramót og hin síðustu verða til þess að kaupmáttur ráðstöfunartekna eykst hraðar en ofangreindar tölur gefa til kynna.

Samkvæmt launavísitölu hækkuðu heildarlaun landsmanna að meðaltali um 7,3% milli nóvembermánaða 2004 og 2005. Verðbólga á sama tímabili var 4,2% og kaupmáttaraukningin því u.þ.b. 3%. Horfur eru á að launahækkanir verði nokkuð örar á því ári sem nú er nýhafið. Atvinnuleysi er lítið og skortur á starfsfólki í ýmsum atvinnugreinum, þótt vaxandi innflutningur vinnuafls hafi bætt úr skák í sumum geirum atvinnulífsins. Allt bendir til þess að svo verði áfram á þessu ári. Aukin spenna á vinnumarkaði hefur valdið þrýstingi á laun og virðist launaskrið nú vera umtalsvert. Ólíklegt er að úr því dragi að marki fyrr en framleiðsluspenna í hagkerfinu minnkar verulega, en samkvæmt mati Íslandsbanka nemur hún nú u.þ.b. 4% umfram þá framleiðslugetu sem samrýmist þjóðhagslegu jafnvægi.

Framleiðsluspenna og launahækkanir umfram aukningu á framleiðni vinnuaflsins mynda þrýsting til hækkunar verðlags og gerir Greining Íslandsbanka ráð fyrir töluverðri verðbólgu á þessu ári. Hækkandi verðlag mun því vega gegn launahækkunum á vinnumarkaði að verulegu leyti, en þó gerir bankinn ráð fyrir að kaupmáttur launa aukist allt að 1% á þessu ári að jafnaði. Hins vegar eru líkur á að mikil verðbólga árið 2007 verði til þess að kaupmáttur launa minnki það ár.